Strútssyndróm.....

Menntasvið Reykjavíkurborgar virðist stinga höfðinu í sandinn þessa dagana.

Í meðfylgjandi frétt frá menntasviði stendur að enginn kennaraskortur sé í 18 skólum.  Það þýðir að það vantar kennara í 21 skóla, sem sagt í meirihluta skóla í borginni vantar kennara.

Einnig stendur að á síðustu 10 dögum hafa verið ráðnir rúmlega 30 kennarar.  Skyldu þeir allir vera faglærðir kennarar eða er verið að redda sér með leiðbeinendum?

Enn vantar 38 kennara sem þýðir að miði maður við 25 börn að meðaltali í bekk, þá vantar 950 börnum kennara.  

 

950 börn sem eiga að byrja í skóla eftir tvo daga og enginn kennari.   

 

 

Menntasvið er bjartsýnt og ánægt með ástandið...... er Kennarasambandið, kennarar og foreldrar það líka?

 

 


mbl.is Vel gengur að ráða kennara í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verð að segja að.....

.... að ég hef miklu meiri áhyggjur af kennaraskortinum.  Sonur minn er að fara í 4. bekk og þrátt fyrir að staðan hafi verið auglýst í allt sumar er ekki enn búið að manna hana. 

Skólinn verður settur á mánudaginn.

Ég er kennari sjálf og þekki of vel til málanna til þess að vera bjartsýn.  Satt að segja hef ég ekki nokkra trú á að á mánudaginn komi skyndilega hæfur kennari og vilji taka við bekknum.  Og hvað þá?

Verður ráðinn starfskraftur, bara til að ráða einhvern, af því að skólastarf þarf að hefjast á miðvikudaginn?  Verður kennari úr skólanum, þegar í fullu starfi fenginn til þess að bæta bekknum við stundatöfluna hjá sér?  Hversu mikið er hægt að leggja á kennarana?  Hversu mikið er hægt að leggja á nemendurna?

Mitt faglega mat er það að skólastarf getur ekki hafist þegar starfsmaður er ekki til staðar.  Í rauninni finnst mér að skólastjórnendur eigi að tilkynna foreldrum og fræðsluyfirvöldum að því miður sé ekki hægt að halda uppi eðlilegu skólastarfi þar sem ekki fáist kennarar til starfa.  Það er gert á leikskólum..... því ekki í grunnskólum.

Sem móður finnst mér ástandið skelfilegt.  Kennarinn er gífurlega mikilvægur í lífi sonar míns.  Það er undir honum komið hvernig syni mínum líður í skólanum, hvernig hans kynni af skólalífinu verða.  Það er kennarinn sem ég treysti og trúi fyrir því mikilvægasta í mínu lífi.  Það er kennarinn sem spilar stóran þátt í því að hvernig manneskja sonur minn verður er hann vex upp ekki síður en við foreldrarnir.  Þess vegna vil ég að kennarinn sé hæfur og ánægður í starfi sínu.

Ég sem kennari hef gengið í gegnum hæðir og lægðir í starfi mínu.  Undanfarin ár hef ég samið við sjálfa mig:  Haltu áfram eitt ár í viðbót í þessu skemmtilega starfi, síðan máttu finna þér auðveldara og betur launað starf....   Því það eru ekki bara launamálin sem eru að valda óánægju hjá kennurum, það er einnig starfsumhverfið.  Kennarastarfið hefur þyngst gífurlega undanfarin ár.  Hluti af því er sú staðreynd að lögð hefur verið gríðarleg áhersla á "Skóla fyrir alla" sem þýðir það að sérskólar hafa verið lagðir niður og almennir grunnskólar hafa tekið við öllum nemendum sama hvernig sérþarfir þeir eiga við að stríða.  En svo gleymist að láta fjármagnið og sérfræðingana fylgja með.  Kennarar reyna sitt besta til að sinna öllum sínum nemendum en í 20-30 manna bekk getur það reynst erfitt og það er gífurlegt álag.  Margir kennarar brenna því út á nokkrum árum og leita í störf með minna áreiti og álagi.

Í sumar var mér boðin vinna, ritarastarf, hærri laun en ég er með í kennslunni, lítil ábyrgð og gengið út kl. 4 án þess að taka með mér bunka af bókum til yfirferðar eða annan undirbúning.  Þetta var gífurlega freistandi og hefði ég ekki verið búin að lofa því að kenna í vetur hefði ég að öllum líkindum tekið starfinu..... 

Hvenær skyldi því koma að því að börnin okkar verði samfélaginu dýrmætari en símasvörun hjá bönkunum? 


mbl.is Óskað eftir því að greiddar verði sérstakar álagsgreiðslur á frístundaheimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félagi?

Af hverju segir blaðamaður ekki sambýlismaður eða maki?  Mér sýnist augljóst á fréttinni að þeir eru sambýlismenn en svo geta þeir sjálfsagt líka verið hinir bestu félagar....
mbl.is Greiða sjálfir hótelgistingu við læknisheimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Modena og Pavarotti

Fyrir nokkrum árum fór ég á góðgerðartónleika Pavarottis sem hann heldur árlega í Modena.  Tónleikarnir voru stjörnum prýddir en Pavarotti var þó flottastur.  Hafði ekkert fyrir söngnum, hélt jafnvel stundum aftur af sér til að aðrar stórstjörnur féllu ekki alveg í skuggann.  Yndislegast var þó að standa í hópi þúsunda ítala syngjandi O Sole Mio.

Ég vona að hann nái sér að fullu, mig hefur alltaf langað aftur til Modena. 


mbl.is Jákvæð þróun mála hjá Pavarotti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fór að leita...

... að frekari upplýsingum þar sem mér fannst ósköp lítið koma fram í þessari frétt.  Þar sem ég á barn á þessum aldri sem stundar bæði íþróttir og tónlistarnám sem er fokdýrt en maður hefur nú samt látið sig hafa það (þar spilar inn í áðurnefnt eilíft samviskubit móður) og fannst mér spennandi að fá einhverja niðurgreiðslu að fullu eða einhverju leyti.

Fann ósköp lítið á vef Reykjavíkurborgar en þó þessa stuttu grein sem hægt er að nálgast hér.  Þar stendur að haustið 2007 verði framlag til barna 6-18 ára 12.000,- kr.

12.000,- kr.

Ég geri mér grein fyrir að þetta er betra en ekki neitt og að þetta muni kosta borgina heilmikið en samt 12.000,-? 

Ég er hrædd um að erfitt verði að finna íþróttastarf, lista eða æskulýðsstarfsemi sem þetta framlag dekkar...... 


mbl.is 20 þúsund börn fá frístundakort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að missa sig í skólatöskukaupum...

... ég var einmitt farin að kvíða skólatöskukaupum því einu töskurnar sem ég sá kostuðu hönd og fót og ég þarf eiginlega að nota bæði í daglegu lífi og því hlakkaði mig ekki mikið til að kaupa tösku fyrir soninn.  Var farin að spá í hvort ég ætti kannski bara að kaupa venjulegan bakpoka fyrir drenginn en þá greip hið eilífa samviskubit móður inn í og ég mundi eftir öllum greinunum um mikilvægi góðrar tösku á heilsu og líkamsbyggingu barna.  Svo að ég var farin að klípa af laununum mínum og leggja inn á sérstakan sparnaðarreikning, skólatöskureikning.

En yfir morgunkaffinu í morgun sá ég mér til mikillar ánægju að Nettó var að auglýsa hræódýrar töskur, þar að auki gæðatöskur.  Sonurinn var búin að nota tösku sömu tegundar í 3 ár og ekki er hægt að saka hann um góða meðhöndlun.

Þannig að 5 mínútum eftir opnun vorum við mæðginin mætt í Nettó og nú er drengurinn stoltur eigandi fallegrar, vandaðrar og sterkrar skólatösku, sem kostaði 995 kr.

 

995 kr.

 

Kannski ég breyti bara skólatöskureikningnum í utanlandsferðarreikning. 


mbl.is Aðeins 19 króna verðmunur á dýrum skólatöskum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjúkk it!

Mér líður svo miklu betur núna þegar ég veit um alla skattakóngana á landinu....... 


mbl.is Hreiðar Már Sigurðsson gjaldahæstur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt sinn....

... var Saddam líka vinur Bandaríkjanna...... vinátta sem byggist á vopnabraski er hverful..... vinur í dag, óvinur á morgun.

Hins vegar hefur margt gott komið frá Bandaríkjunum og er þetta eitt af því ameríska sem ég held mikið upp á....  ekki er þetta síðra og mun þekktara....


mbl.is Bandaríkin útvega bandamönnum sínum vopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man eftir...

einu spennandi keppni ársins 2002 þegar Raikkonen og Schumacher tókust á.  Leit út fyrir að það yrði fyrsti sigur Raikkonen þegar hann rann skyndilega í olíupolli og Schumacher komst fram úr.  Þetta var eini ljósi punktur alls keppnistímabilsins var með því allra leiðinlegasta hefur orðið í formúlunni.

Raikkonen hefur alltaf keyrt þessa braut skemmtilega og ég hlakka til að sjá hvernig verður í ár.

Skyldi Alonso halda áfram í fýlu??? 


mbl.is Räikkönen „fullur sjálfstrausts“ fyrir Magny-Cours
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Blondie
Blondie
Hvers vegna Blondie?  Klikkaðu og þú kemst að því......

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband